Körfubolti

Haukur Helgi: Búinn að gleyma því hvað deildin er hröð

Ingvi Þór Sæmundsson í DHL-höllinni skrifar
Haukur skoraði 13 stig og tók 13 fráköst í sínum fyrsta leik fyrir Njarðvík.
Haukur skoraði 13 stig og tók 13 fráköst í sínum fyrsta leik fyrir Njarðvík. vísir/anton
Það er ekki hægt að segja að Haukur Helgi Pálsson hafi fengið draumabyrjun með Njarðvík en liðið steinlá, 105-76, fyrir KR í fyrsta leik landsliðsmannsins fyrir þá grænu.

"Þetta var gaman og á sama tíma erfitt," sagði Haukur aðspurður hvernig það hafi verið að spila í græna búningnum í fyrsta skipti.

"Ég var búinn að gleyma hvað þessi deild er hröð, það er mikið hlaupið og mikið skotið og ég þarf að læra aðeins inn á deildina," sagði Haukur sem lék síðast á Íslandi tímabilið 2008-09 með uppeldisfélaginu Fjölni í 1. deild.

Njarðvíkingar voru heillum horfnir í kvöld og voru hreinlega rassskelltir af Íslandsmeisturunum sem voru í miklum ham. Haukur segir að varnarleikurinn hafi orðið Njarðvíkingum að falli í kvöld.

"Það var vörnin. Við skorum 76 stig og mér finnst það eiga vera nóg, það var það allavega oftast úti, en við eigum eftir að bæta okkur sem lið," sagði Haukur.

"Þeir skora 105 stig og við vorum að týnast og töluðum ekki saman í vörninni. Þetta var aðallega vörnin," bætti Haukur við en hann hefur takmarkaðar áhyggjur af framhaldinu.

"Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu. Ég hef fulla trú á þessu liði og við eigum eftir að verða hörku varnarlið. Ég skal lofa þér því," sagði Haukur að lokum en hann verður aftur á ferðinni með Njarðvík á mánudaginn þegar liðið tekur á móti Tindastóli í Powerade-bikarnum.


Tengdar fréttir

Haukur Helgi: Gott að hafa pressu á sér

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður Íslands í körfubolta, er maðurinn sem á að koma Njarðvíkingum alla leið í Domino's-deildinni í vetur.

Haukur Helgi skrifaði undir hjá Njarðvík

Haukur Helgi Pálsson, einn besti leikmaður íslenska körfuboltalandsliðsins á Eurobasket í Berlín 2015 mun spila í Domino´s deild karla í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×