Erlent

Slóvenar byrja að leggja girðingu á landamærunum að Króatíu

Atli Ísleifsson skrifar
Lest vörubíla á vegum hersins kom í morgun til bæjarins Veliki Obrez.
Lest vörubíla á vegum hersins kom í morgun til bæjarins Veliki Obrez. Vísir/AFP
Fjölmiðlar í Slóveníu hafa greint frá því að yfirvöld þar í landi hafi í morgun byrjað að leggja áður boðaða girðingu á landamærunum að Króatíu.

Lest vörubíla á vegum hersins kom í morgun til bæjarins Veliki Obrez þar sem hermenn byrjuðu að leggja gaddavírsgirðingu meðfram bökkum árinnar Sutla.

Með girðingunni vonast slóvensk yfirvöld til að betur verði hægt að stjórna straumi þeirra flóttamanna sem koma til landsins um Króatíu, en hann hefur stóraukist eftir að ungversk yfirvöld lokuðu landamærum sínum.

Miro Cerar, forsætisráðherra Slóveníu, segir að reiknað sé með að um 30 þúsund flóttamenn komi til Slóveníu á næstu vikum. Segir hann að landamærin verði áfram opin en að með girðingunni verði betur hægt að stjórna straumnum.

Um 175 lögreglumenn frá öðrum aðildarríkjum ESB hafa að undanförnu verið sendir til Slóveníu til að aðstoða þarlend yfirvöld við að fast við vandann og er búist við fleirum á næstunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×