Körfubolti

„Hárrétt að reka Poikola“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Poikola stýrði Tindastóli í aðeins fjórum deildarleikjum.
Poikola stýrði Tindastóli í aðeins fjórum deildarleikjum. Vísir/Vilhelm
Stefán Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, segir að hann hafi fengið 100 prósent meðmæli með Joe Costa, nýráðnum þjálfara liðsins.

Costa er 43 ára Spánverji sem hefur áður starfað með Israel Martin, sem þjálfaði lið Tindastóls með góðum árangri í fyrra.

Stefán, sem starfar á sjó, var staddur á Grænlandssundi þegar Vísir náði tali af honum í kvöld.

„Hann og Israel eru vinir og hafa þekkst lengi. Israel gaf honum 100 prósent meðmæli,“ sagði Stefán sem segir að leitin að nýjum þjálfara hafi heilt yfir ekki gengið illa.

Sjá einnig: Kári stýrir Stólunum þangað til nýr þjálfari finnst

„Það er til nóg af þjálfurum. Það þurfti bara að velja þann rétta. Það gekk ekki innanlands en það var reynt. Við ræddum við alls fimm íslenska þjálfara,“ sagði Stefán en í gær staðfesti Sverrir Þór Sverrisson, fyrrum þjálfari Grindavíkur, að hann hafi gefið Stólunum afsvar vegna anna.

Finninn Pieti Poikola var rekinn eftir aðeins fjóra leiki í haust og segir Stefán að hann sjái alls ekki eftir þeirri ákvörðun.

„Það var hárrétt ákvörðun og engin eftirsjá í því. Það er engin spurning að Pieti er fær þjálfari en hugmyndafræði hans hentaði okkur engan veginn,“ sagði Stefán.

Sjá einnig: Stólarnir mega ekki tjá sig um brottrekstur Poikola

Hann segir að þetta hafi ekki komið í ljós fyrr en tímabilið var hafið. „En þá kom það mjög fljótt fram,“ bætti hann við.

Stefán vonar að Stólarnir verði léttleikandi lið undir stjórn nýja þjálfarans. „Ég vona að hann [Costa] hafi gaman að þessu og að strákarnir hafi gaman að þessu líka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×