Erlent

Stórsigur í baráttunni við ISIS

Hrund Þórsdóttir skrifar
Íraski herinn hefur náð á sitt vald borginni Ramadi, sem verið hefur undir stjórn hryðjuverkasamtakanna Isis frá því í maí. Er áfanginn álitinn gríðarlega mikilvægur og fyrsti stóri sigur hersins í baráttunni við vígamennina undanfarið eitt og hálft ár.

Sveitir íraska hersins og bandamanna hafa herjað á borgina síðustu daga og mætt harðri mótspyrnu vígamanna sem meðal annars hafa beitt leyniskyttum og sjálfsvígsárásum til að standa vörð um þetta mikilvæga vígi sitt.

Ramadi er höfuðborg Anbar héraðsins, staðsett miðsvæðis í Írak um hundrað og tíu kílómetra vestur af Bagdad, og eftir því sem Írakar sóttu fram flúðu fleiri og fleiri vígamenn í norðausturátt.

Stjórnarherinn náði svo í dag á sitt vald stjórnarbyggingum borgarinnar og fögnuðu hermenn innilega með vopn sín á lofti, er þeir drógu þar að húni íraska fánann, eins og sjá má í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt.

Með þessum áfanga er talið að búið sé að frelsa borgina og aðeins eigi eftir að yfirbuga vígamenn á nokkrum stöðum á svæðinu. Hafa þeir þar með beðið einn sinn mesta ósigur og misst frá sér mikilvægasta hernaðarsigur sinn á árinu tvö þúsund og fimmtán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×