Innlent

Reykvíkingar vilja að fleiri sveitarfélög borgi fyrir rekstur Sinfóníunnar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Halldór Halldórsson er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn.
Halldór Halldórsson er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Fréttablaðið/Pjetur
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn segja hlut Reykjavíkurborgar í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands ósanngjarnan.

„Borgarstjórn lýsir yfir að skylduþátttaka borgarinnar í rekstri hljómsveitarinnar með lögum sé ósanngjörn enda koma áheyrendur hennar af öllu suðvesturhorni landsins,“ segir í tillögu sem sjálfstæðismenn lögðu fram í borgarstjórn á þriðjudag. Þeir benda á að borgin greiði 18 prósent af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands samkvæmt lögum frá árinu 1982. Af 211 þúsund íbúum höfuðborgarsvæðisins búi 42 prósent í öðrum sveitarfélögum.

„Borgarstjórn lýsir sig reiðubúna til að styðja við Sinfóníuhljómsveit Íslands en þó einungis 58 prósent af núverandi framlagi enda muni önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu greiða 42 prósent af því framlagi sem Reykjavíkurborg hefur greitt fram til þessa,“ segir í tillögunni.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á að fylgja málinu eftir.Fréttablaðið/Stefán
Úr varð að breytingartillaga meirihlutaflokkanna við tillögu sjálfstæðismanna var samþykkt.

„Borgarstjórn skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að vinna að því að önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taki þátt í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands, eins og heimilt er í lögum. Takist það ekki er því beint til ráðherra að leggja fyrir Alþingi að gera breytingar á lögum,“ segir í tillögunni sem var samþykkt.

Degi B. Eggertssyni borgarstjóra var falið að fylgja málinu eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×