Erlent

Ætla að „grafa“ ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Ashraf Ghani, forseti Afganistan.
Ashraf Ghani, forseti Afganistan. Vísir/EPA
Ashraf Ghani, forseti Afganistan, lofar því að hópur sem aðhyllist samtökunum Íslamskt ríki verði „grafin“ þar í landi. Deild ISIS í Afganistan hefur barist bæði gegn stjórnarhernum og Talibönum og Ghani segir að þeir tákni verulega ógn. Hins vegar hafi ódæði þeirra ekki fallið vel í kramið hjá Afgönum og að þjóðin sé nú knúin áfram af hefnd.

„Þeir kássuðust upp á ranga þjóð,“ segði Ghani.

Samtökin lýstu yfir veru sinni í Afganistan í janúar í fyrra, en meðlimir ISIS þar eru að mestu fyrrverandi meðlimir Talibana í Pakistan og Afganistan. Í viðtali við BBC kallaði Ghani eftir samvinnu við nágranna sína sem og á alþjóðavettvangi til að sporna gegn ISIS.

Þá hafa Talibanar stofnað sérstaka þúsund manna sérsveit, sem ætlað er að berjast gegn deild ISIS í Afganistan.

Sjá einnig: Talibanar hneykslaðir á framferði ISIS

Til stendur að hefja friðarviðræður við Talibana, en átökin í Afganistan hafa stigmagnast á síðustu mánuðum. Talibanar hertóku stóran hluta af hinum mikilvæga bæ Sangin og í september tókst þeim að ná borginni Kunduz að fullu, en þó í stuttan tíma.

Ghani segir nauðsynlegt að friðarviðræðurnar hefjist sem fyrst, áður en átökin magnast enn fremur. Þá segir hann að átökin í Afganistan séu samofin átökum í Pakistan, þar sem yfirvöld berjast einnig við Talibana. Hann stakk upp á því að Pakistanar myndu herja sérstaklega gegn þeim deildum Talibana sem neituðu að taka þátt í friðarviðræðunum.

„Við þurfum að átta okkur á því að við eigum sameiginlega hagsmuni og að við þurfum að vinna saman til að vernda ríki okkar.“

Aðspurður út í hvað hann hefði að segja við þá afgönsku flóttamenn sem hafi flúið til Evrópu sagði Ghani: „Það sem ég vil segja við þau er að þau eiga sér ekki framtíð í Evrópu. Evrópa er að loka landamærum sínum.“


Tengdar fréttir

Talibanar sækja fram í Sangin

Vígamenn sitja um hundruð hermenn og lögreglumenn nærri bænum, sem er sagður vera undir stjórn Talibana.

Talibanar hörfa frá Kunduz

Afganski stjórnarherinn hefur hrakið herlið Talibana frá borginni Kunduz í norður-Afganistan

Vígamenn ráðast á háskóla í Pakistan

Vígamenn gerðu í nótt árás á háskólann í Charsadda í norðvesturhluta Pakistans og stendur bardagi á milli þeirra og öryggissveita enn yfir. Mennirnir skutu sér leið inn í skólann og enn er óljós hvort margir séu látnir en staðfest er að sjö eru látnir og tuttugu særðir hið minnsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×