Golf

Tiger Woods svarar fréttum um slæmt ástand með myndbandi á Twitter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods.
Tiger Woods. Vísir/Getty
Fréttir um slæmt líkamlegt ástand kylfingsins Tiger Woods hafa verið bornar til baka og Tiger sjálfur gekk síðan einu skrefi lengra og birti myndband af sér inn á Twitter.

Það hafði lítið heyrst af Tiger síðustu mánuði en í upphafi vikunnar kom fram orðrómur um að bakmeiðsli hans væri mun alvarlegri en áður hafði komið fram.

Golfblaðamaðurinn Robert Lusetich og Secret Tour Pro á twitter sögðu frá því að Tiger gæti varla hreyft sig vegna bakverkja sem og að hann gæti ekki setið í bíl.

Það kom síðan í ljós að ekki væri mikið af marka þessar fréttir en Tiger ákvað samt að sýna stuðningsmönnum sínum og öðru golfáhugafólki að það væri allt í lagi með sig.

Ekki unnið risamót frá 2008

Tiger setti inn myndband af sér í golfhermi þar sem sést að sveiflan hans er í fínu lagi.

Tiger tók síðast þátt í golfmóti í ágúst síðastliðnum en hann hefur farið í tvær bakaðgerðir síðan. Woods sýndi sig líka í kvöldverði í gær með öðrum kylfingum í Nike-liðinu og hefur því jarðað allan orðróm um slæma stöðu á bakinu sínu.

Tiger Woods hefur unnið fjórtán risamót á ferlinum en hann hefur ekki unnið slíkt mót síðan árið 2008. Jack Nicklaus á metið en hann hefur enn fjögurra risatitla forskot á Woods.

Það er hægt að sjá Tiger Woods svara þessum orðrómi um bakið sitt hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×