Golf

Henrik Stenson fyrsti Svíinn sem vinnur risamót

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Henrik Stenson fagnar einu af mögnuðum púttum sínum í dag.
Henrik Stenson fagnar einu af mögnuðum púttum sínum í dag. vísir/getty
Sænski kylfingurinn Henrik Stenson vann sinn fyrsta sigur á risamóti í dag þegar hann bar sigur úr býtum á opna breska meistaramótinu á Royal Troon-vellinum í Skotlandi. Hann er jafnframt fyrsti Svíinn sem fagnar sigri á risamóti í karlaflokki. Stenson spilaði í heildina á 20 höggum undir pari sem bætir met Tigers Woods frá því 2000.

Sjá einnig:Bætti sextán ára gamalt met Tiger og 23 ára gamalt met Norman

Stenson hafði betur í baráttunni við hinn 48 ára gamla Phil Mickelson frá Bandaríkjunum og stóð uppi sem sigurvegari eftir algjörlega magnaðan lokahring hjá þeim báðum. Mickelson fór lokahringinn á sex höggum undir pari og spilaði frábærlega en það bara dugði ekki til.

Svíinn var með eins höggs forskot fyrir lokahringinn í dag en tveggja högga sveifla varð strax á fyrstu holu þegar Stenson fékk skolla en Mickelson fugl.

Phil Mickelson spilaði mjög vel en það dugði ekki til.vísir/getty
Bætti tvö met

Stenson bætti heldur betur upp fyrir það og fékk þrjá fugla á næstu þremur holum og fimm fugla í heildina á næstu átta holum. Hann kláraði fyrri níu á 32 höggum eða fjórum höggum undir pari.

Stenson fékk í heildina tíu fugla á lokahringnum og tvo skolla, en hann spilaði síðasta hringinn á 63 höggum eða átta höggum undir pari vallarins. Hann varð í heildina á 20 höggum undir pari og bætti þar með met Tigers Woods frá árinu 2000 yfir besta skor til pars á opna breska meistaramótinu.

Svíinn jafnaði einnig metið yfir besta skor á einum hring á risamóti með því að spila á 63 höggum í dag en það gerði Phil Mickelson einnig á fyrsta keppnidegi. Stenson bætti einnig metið yfir fæst högg á opna breska en hann fór hringina fjóra á 264 höggum. Metið átti Greg Norman frá 1993 sem var 267 högg.

Mickelson gerði allt hvað hann gat til að halda í við Stenson en hann spilaði lokahringinn á sex höggum undir pari. Hann fékk fjóra fugla, einn örn og engan skolla. Það bara dugði ekki til í dag vegna frábærrar frammistöðu þess sænska.

Henrik Stenson lenti í smá basli á 16. braut en það skipti engu. Hann fékk fugl.vísir/getty
Nú vann Svenson

Þessir sömu menn börðust um Silfurkönnuna á opna breska meistaramótinu fyrir þremur árum síðan en þá hafði Mickelson betur og fagnaði sigri í fyrsta og eina skiptið á þessu móti. Hann hefur í heildina unnið fimm risamót; The Masters þrisvar sinnum, opna breska einu sinni og PGA-meistaramótið einu sinni.

Stenson átti best annað sætið á opna breska fyrir þremur árum en hann hefur áður hafnað í þriðja sæti í tvígang á PGA-meistaramótinu og einu sinni í fjórða sæti á opna bandaríska meistaramótinu.

Svíinn fertugi fær 1.750 þúsund pund í sigurlaun eða því sem jafngildir um 190 milljónum íslenskra króna.

Lokastaða efstu manna:

1. Henrik Stenson, Svíþjóð - 264 högg (20 undir pari)

2. Phil Mickelson, Bandaríkjunum - 267

3. JB Holmes, Bandaríkjunum - 278

4. Steve Stricker, Bandaríkjunum - 279

5.-7. Rory McIlroy, Norður-írlandi - 280

5.-7. Tyrell Hatton, Englandi - 280

5.-7. Sergio Garcia, Spáni - 280

8. Andrew Johnston, Englandi - 281

9.-11. Dustin Johnson, Bandaríkjunum - 282

9.-11. Sören Kjeldsen, Danmörku - 282

9.-11. Bill Haas, Bandaríkjunum - 282


Tengdar fréttir

Spieth lauk loksins hring á stórmóti undir pari

Einn besti kylfingur heims sýndi loksins sitt rétta andlit á lokadegi Opna breska meistaramótsins en hann var búinn að leika tíu hringi í röð yfir pari á stórmótum fyrir hring dagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×