Golf

Tiger ánægður þrátt fyrir misjafnt gengi um helgina

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Tiger var að vanda í rauðu á sunnudegi móts
Tiger var að vanda í rauðu á sunnudegi móts Vísir/Getty
Tiger Woods hafnaði í 15. sæti á Heros World Challenge-mótinu á Bahama sem kláraðist nú í kvöld en þetta var fyrsta mótið sem hann klárar í sextán mánuði.

Tiger sem er gestgjafi þessa árlega móts byrjaði af krafti og sýndi á köflum gamalkunna takta, sérstaklega á fyrstu hringjunum en hann lék á fjórum höggum yfir pari á lokadeginum.

Lauk hann leik á fjórum höggum undir pari, 14 höggum á eftir japanska kylfingnum Hideki Matsuyama sem stóð uppi sem sigurvegari í kvöld.

Woods sem var elsti kylfingurinn á mótinu fékk flesta fugla mótsins (24) en átti einnig slakasta hring mótsins í dag en hann vildi ekki greina frá því hvenær hann ætlaði að taka þátt í móti næst.

„Það var gaman að fá alla þessa fugla, mér fannst það takast vel en svo gerði ég oft á tíðum barnaleg mistök. Ég spilaði par 4 holurnar einfaldlega hrikalega,“ sagði Woods sem segist vera að spila á nýjan máta:

„Þetta er allt saman nýtt fyrir mér á ný, að spila og finna fyrir adrenalíninu í blóðinu. Það var margt jákvætt í þessu og ég get unnið í því sem fór úrskeiðis.“

Tiger var ekki tilbúinn að tjá sig um næsta tímabil.

„Mig dreymir um að spila á öllum mótum á næsta tímabili en ég þarf að skoða þetta. Ég mun setjast niður með sjúkraþjálfara mínum og reyna að styrkja mig og sjá til eftir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×