Innlent

Hafna meintu verkfallsbroti

Samúel Karl Ólason skrifar
Í tilkynningunni segir að um alvarlega íhlutun sé að ræða að beita sektum eða stöðva skip sem haldi til veiða með löglegum hætti.
Í tilkynningunni segir að um alvarlega íhlutun sé að ræða að beita sektum eða stöðva skip sem haldi til veiða með löglegum hætti. Vísir/Eyþór
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafna alfarið að verkfallsbrot hafi verið framið af Nesfisk ehf. Tvö skip fyrirtækisins héldu til veiða þann 3. janúar en formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis sagði að um skýlaust brot hafi verið að ræða.

„Okkar túlkun er sú að það er verið að ganga í störf okkar félagsmanna, þó menn borði bara kók og prins á meðan en ekki að elda einhverjar stórsteikur,“ sagði Kristján Gunnarsson.

Sjá einnig: Verið að ganga í störf annarra þó menn fái sér bara kók og prins um borð

Eins og áður segir þá hafna SFS þessum ásökunum. Í tilkynningu frá samtökunum segir að enginn hafi gengið í störf einstaklinga sem séu í verkfalli.

„Þá breytir engu í þessu samhengi að hlutaðeigandi skip séu gerð út á félagssvæði Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis. Boðvald stéttarfélagsins er bundið við eigin félagsmenn og nær því ekki til starfsmanna sem ekki eru félagsmenn í hlutaðeigandi stéttarfélagi. Þeim einstaklingum verður því ekki gert að leggja niður störf,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir einnig að um alvarlega íhlutun sé að ræða að beita sektum eða stöðva skip sem haldi til veiða með löglegum hætti.

„Sé um ólögmæta íhlutun stéttarfélags að ræða, kann það að leiða til skaðabótaskyldu þess.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×