Handbolti

Meistaradeildarárið 2017 byrjar vel hjá Guðjóni Val og Alexander

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar einu marka sinna í kvöld.
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar einu marka sinna í kvöld. Vísir/Getty
Rhein-Neckar Löwen vann þriggja marka sigur á toppliði Vive Tauron Kielce,28-25, í fyrsta leik liðanna í Meistaradeildinni á nýju ári.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í liði Rhein-Neckar Löwen með sjö mörk úr níu skotum. Alexander Petersson skoraði síðan fimm mörk úr níu skotum og var næstmarkahæstur.

Löwen endaði þarna þriggja leikja sigurgöngu Kielce í Meistaradeildinni en þýska liðið hefur unnið báða leiki liðanna í keppninni. Tvö af þremur töpum Pólverjaanna hafa því komið á móti Rhein-Neckar Löwen.

Ljónin voru búin að tapa tveimur af síðustu fjórum leikjum sínum í Meistaradeildinni en ætlar að byrja að krafti eftir rúmlega mánaðar HM-frí.

Guðjón Valur Sigurðsson gaf tóninn í upphafi leiks en hann skoraði fjögur af fyrstu átta mörkum Löwen sem komst í 8-5.

Guðjón Valur var síðan með fimm mörk í hálfleik og Löwen leiddi með þremur mörkum, 16-13.

Kielce minnkaði muninn í tvö mörk í lokin en Íslendingarnir skoruðu þrjú síðustu mörk síns liðs, Alexander tvö og Guðjón Valur eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×