Handbolti

Hreiðar Levý á heimleið: Flytur til Reykjavíkur og ætlar í fasteignabransann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hreiðar Levý Guðmundsson spilar aftur á Íslandi.
Hreiðar Levý Guðmundsson spilar aftur á Íslandi. vísir/eyþór
Hreiðar Levý Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður í handbolta, er á heimleið frá norska úrvalsdeildarliðinu Halden en hann er búinn að spila sinn síðasta leik fyrir félagið.

Markvörðurinn er meiddur á hné og snýr því aftur til Íslands en hann er með samning út næsta tímabili. Hann og félagið hafa komist að samkomulagi um að hann yfirgefi Noreg, ári á undan áætlun.

„Ég er með heimþrá og vil ég vera nær kærustunni og börnunum. Ég hef verið á ferðalagi í tólf ár og einbeitt mér bara að handboltanum. Svo er ég líka meiddur þannig það var auðveld ákvörðun að fara aftur heim til Íslands,“ segir Hreiðar í viðtali við Ha-halden.no.

Hreiðar var kominn heim úr atvinnumennsku og að spila með Akureyri í Olís-deildinni þegar einstakt tilboð um að fara til Halden barst. Stuðningsmennirnir söfnuðu sjálfir fyrir markverðinum og náðu að safna tæpum tveimur milljónum króna.

„Það er kominn tími til að finna út hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór,“ segir Hreiðar í léttum dúr en hann ætlar að flytja til Reykjavíkur og halda áfram að spila.

„Planið er að flytja til Reykjavíkur og spila tvær leiktíðir í viðbót á meðan ég mennta mig sem fasteignasali,“ segir Hreiðar Levý Guðmundsson.

Silfurdrengurinn fer í aðgerð vegna meiðslanna á næstunni en segist verða klár fyrir næstu leiktíð. Nú má væntanlega búast við miklu kapphlaupi liðanna í Olís-deildinni um undirskrift þessa frábæra markvarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×