Handbolti

Ólafur Bjarki hafði betur í Íslendingaslag

Ólafur Bjarki.
Ólafur Bjarki. Mynd/Vísir
Ólafur Bjarki Ragnarsson hafði betur í sannkölluðum Íslendingaslag í þýska handboltanum í dag í 2. deildinni í 27-26 sigri Eisenach gegn Aue en eftir sigurinn er Eisenach í 7. sæti deildarinnar.

Bjarki Már Gunnarsson, Árni Þór Sigtryggsson og Sigtryggur Rúnarsson voru allir í liði Aue í dag og voru því fjórir íslenskir leikmenn sem tóku þátt.

Eisenach leiddi 13-12 í hálfleik og hélt eins marka forskoti út leikinn en þetta var þriðja tap Aue í síðustu fjórum leikjum.

Aue fékk níu mörk frá íslensku leikmönnunum, þar af sex þeirra frá Sigtryggi en Ólafur Bjarki var með þrjú mörk í níu skotum fyrir Eisenach.

Fyrr í dag vann Bergischer með Björgvin Pál Gústavsson og Arnór Þór Gunnarsson innanborðs sigur á heimavelli 29-25 gegn Coburg en Arnór var markahæstur í liði Bergischer með átta mörk í tíu skotum.

Þá komst Bjarki Már Elísson ekki á blað í 28-24 sigri Fusche Berlin gegn Goppingen á útivelli en Berlínarrefirnir eiga þó töluvert í land með að ná toppliðum Flensburg, Kiel og Rhein-Neckar Löwen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×