Handbolti

Alfreð tapaði á gamla heimavellinum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það hefur gengið brösuglega hjá Kiel að undanförnu
Það hefur gengið brösuglega hjá Kiel að undanförnu Vísir/Getty
Alfreð Gíslason og félagar í Kiel töpuðu gegn Magdeburg á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld. Kiel mistókst því að minnka forystu Flensburg á toppnum.

Kiel hefur gengið brösuglega undanfarið og tapaði til dæmis óvænt gegn Bjerringbro/Silkeborg í Meistaradeildinni um helgina.

Fyrir leikinn í kvöld hafði Kiel tækifæri á að minnka mun Flensburg niður í eitt stig og leikurinn því afar mikilvægur. Gestirnir náðu tveggja marka forystu í fyrri hálfleik en Magdeburg náði að jafna fyrir hlé og staðan 15-15 í leikhléi.

Síðari hálfleikur var sömuleiðis jafn og liðin skiptust á að hafa forystuna. Magdeburg náði þriggja marka forystu þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir en Kiel tókst að jafna.

Michael Damgaard skoraði hins vegar sigurmark Magdeburg um leið og tíminn rann út og tryggði heimamönnum mikilvægan sigur.

Tapið kemur sér afar illa fyrir Alfreð og félaga sem eru þremur stigum á eftir Flensburg og máttu alls ekki við því að tapa stigum í titilbaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×