Handbolti

Aron Pálmars ungverskur meistari annað árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson og félagar fagna.
Aron Pálmarsson og félagar fagna. Vísir/EPA
Aron Pálmarsson og félagar í MKB Veszprém tryggðu sér í kvöld ungverska meistaratitilinn í handbolta þrátt fyrir þriggja marka tap á móti MOL-Pick Szeged, 30-27, í seinni úrslitaleik liðanna um titilinn.

Leikurinn í kvöld fór fram á heimavelli MOL-Pick Szeged en Veszprém mátti tapa leiknum með fimm mörkum.  

MKB Veszprém vann nefnilega fyrri leikinn með sex marka mun á heimavelli, 23-17, og þar með með 50-47 samanlagt.

Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk fyrir Veszprém-liðið í þessum leik þar af þrjú þeirra á mikilvægum tímapunktum á lokakafla leiksins.

Í fyrri leiknum var Veszprém tveimur mörkum undir í hálfleik en vann seinni hálfleikinn 15-7.

Í kvöld var MOL-Pick Szeged liðið einu marki yfir í hálfleik, 15-14, en Aron skoraði tvö mörk í fyrri hálfleiknum.

Aron kom í 22-20 þegar 18 mínútur voru eftir og Veszprém var komið í frábæra stöðu.Szeged-menn gáfust þó ekki upp og skoruðu þrjú mökr í röð og komust aftur yfir.

Aron minnkaði muninn í eitt mark, 26-25, þegar níu mínútur voru eftir og það mark kom á góðum tíma enda þurfti Veszprém þá virkilega að marki að halda.  

Szeged-menn komust þremur mörkum yfir, 29-26, en þá kom annað mikilvægt mark hjá Aroni sem minnkaði muninn í tvö mörk þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir.

Þetta er í 25. sinn sem Veszprém verður ungverskur meistari en liðið er að vinna titilinn tíunda árið í röð, hefur unnið deildina allar götur frá með 2007-08 tímabilinu.

Aron er á sínu öðru tímabili með liðinu og var því að verða ungverskur meistari annað árið í röð.



Hér fyrir neðan má sjá leikmenn fagna titlinum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×