Erlent

Telur sig geta sannað söguna um flóðið mikla, örkina og Nóa

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Snelling telur að hægt sé að finna ummerki um flóðið í Mikla gljúfri í Bandaríkjunum.
Snelling telur að hægt sé að finna ummerki um flóðið í Mikla gljúfri í Bandaríkjunum. Vísir/Getty
Ástralski jarðfræðingurinn Andrew Snelling hefur fengið leyfi til að safna steinum úr Mikla gljúfri í Bandaríkjunum með það fyrir augum að sanna að flóðið mikla, sem minnst er á í Biblíunni þar sem örkin hans Nóa er í aðalhlutverki, hafi í raun og veru átt sér stað. Guardian greinir frá.

Snelling hafði áður hótað stjórnendum þjóðgarðsins málsóknum á þeim forsendum að honum hefði verið meinað að rannsaka svæðið og taka um 50 til 60 steina til rannsóknar. Kærði hann málið til bandaríska innanríkisráðuneytisins og taldi að verið væri að mismuna sér vegna trúar.

Snelling vísaði til nýlegrar tilskipunar forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, sem gefur trúarfrelsi aukið svigrúm í Bandaríkjunum. Þar er kirkjum og trúarstofnunum meðal annars gefið meira rými til að styðja við pólitísk málefni. Einnig var fyrirtækjum og trúuðum stjórnendum þeirra gert kleift að veita ekki stuðning við getnaðarvarnir sem eru hluti af tryggingum starfsmanna.

Snelling var veitt doktorsgráða af Háskólanum í Sidney árið 1982 og er yfir rannsóknardeildar kristilegs vísindahóps, Answers in Genesis eða Svör sköpunarsögunnar, sem túlkar Biblíuna bókstaflega. Samstarfsmenn Snelling leggja ekki mikið upp úr kenningu Snelling og segja að ekki sjáist ummerki flóðs í gljúfrinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×