Erlent

Útsýnisflug yfir stærsta storm sólkerfisins

Kjartan Kjartansson skrifar
Samsett mynd sem tölvunarfræðingurinn Björn Jónsson vann úr myndum Voyager 1 af Stóra rauða blettinum á Júpíter. Myndin hefur verið talin ein sú besta sem til er af storminum.
Samsett mynd sem tölvunarfræðingurinn Björn Jónsson vann úr myndum Voyager 1 af Stóra rauða blettinum á Júpíter. Myndin hefur verið talin ein sú besta sem til er af storminum. NASA/JPL og Björn Jónsson
Könnunarfarið Juno sem hefur nú verið á braut um reikistjörnuna Júpíter í ár flýgur beint yfir Stóra rauða blettinn, helsta kennileiti gasrisans, í næstu viku. Mannkynið fær þá fyrstu nærmyndirnar af þessum stærsta stormi sólkerfisins.

Stóri rauði bletturinn er veðrakerfi í lofthjúpi Júpíters sem hefur verið til að minnsta kosti eins lengi og menn hafa getað skoðað reikistjörnuna með sjónaukum. Vísindamenn telja að hann hafi jafnvel verið til í 350 ár samkvæmt frétt á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

Stormurinn er 16.000 kílómetra breiður og er tæplega þrefalt stærri en jörðin að þvermáli. Júpíter hefur hvorki fast yfirborð né haf sem getur eytt storminum og skýrir það langlífi hans, að því er kemur fram á Stjörnufræðivefnum.

Teikning af geimfarinu Juno sem hefur hringsólað um Júpíter frá því í fyrra.Vísir/EPA
Nærflugið á mánudag

Juno-geimfarið flýgur yfir skýjum Júpíters í sjötta skipti mánudaginn 10. júlí. Þegar geimfarið verður næst reikistjörnunni verður það í aðeins 3.500 kílómetra fjarlægð. Til samanburðar skilja um 380.000 kílómetrar jörðina og tunglið að.

Skömmu eftir að að næsta punkti verður náð flýgur Juno yfir Stóra rauða blettinn í um 9.000 kílómetra hæð. Kveikt verður á öllum mælitækjum geimfarins á meðan, þar á meðal myndavél þess. Því má búast við glæsilegum nærmyndum af Stóra rauða blettinum.

Juno var skotið á loft árið 2011 og komst farið á braut um Júpíter í júlí í fyrra. Markmið leiðangursins er að afla upplýsinga um uppruna, uppbyggingu og lofthjúp gasrisans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×