Handbolti

Grótta semur við 195 sentímetra háa sænska skyttu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Garðarsson þjálfari Gróttu.
Kári Garðarsson þjálfari Gróttu. Vísir/Vilhelm
Svíinn Maximilian Jonsson mun spila með Gróttu í Olís deild karla í handbolta á komandi tímabili en þetta kemur fram á fésbókarsíðu handknattleiksdeildar Gróttu.

Maximilian eða Max, eins og hann er jafnan kallaður er 195 sentímetrar á hæð, 28 ára gamall og spilar í stöðu hægri skyttu.

Maximilian hefur leikið seinustu þrjú leiktímabil í Frakklandi fyrst með Nancy og nú seinustu tvö ár með Istres handball í 1. deildinni. Þar á undan lék hann í með þýsku liðunum Leipzig og Hildesheim við góðan orðstír.

Koma Max til Gróttu er mikill hvalreki fyrir félagið samkvæmt fyrrnefndri frétt og eru miklar væntingar bundnar við leikmanninn á næstu árum.

„Þetta eru frábær tíðindi fyrir Gróttu enda er Max reynslumikill leikmaður sem við teljum að muni nýtast liðinu vel á komandi árum" segir Kári Garðarsson þjálfari liðsins í fréttinni.

Gróttumenn hafa verið að missa leikmenn í sumar en þeir segja að frekari tíðinda af leikmannamálum karlaliðs Gróttu megi vænta á næstu dögum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×