Innlent

Varað við stormi og úrhellisrigningu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sjá má á þessu vindakorti Veðurstofunnar verður mjög hvasst víða á landinu í kvöld.
Eins og sjá má á þessu vindakorti Veðurstofunnar verður mjög hvasst víða á landinu í kvöld. veðurstofa íslands
Veðurstofan varar við stormi, það er meira en 20 metrum á sekúndu, við suðurströndina í kvöld. Þá er spáð talsverðri eða mikilli rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum á morgun.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að suðaustanáttir og vætutíð séu í kortunum. Þá má reikna með úrhelli á suðaustanverðu landinu frá og með morgundeginu. Ekki er þó útlit fyrir að það kólni neitt í bili og ætti því hitinn að vera með skárra móti.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga eru annars þessar:

Fremur hæg suðlæg átt og víða dálitlar skúrir, en léttskýjað norðaustan til. Vaxandi suðaustanátt eftr hádegi, 15-23 metrar á sekúndu og fer að rigna sunnan til í kvöld, hvassast við ströndina, en mun hægari og bjartviðri fyrir norðan.

Suðaustan 8-15 og talsverð eða mikil rigning suðaustan til á morgun, en annars úrkomuminna. Lægir vestan til seinni partinn. Hiti 7 til 15 stig að deginum, hlýjast norðaustan lands.

Á þriðjudag:

Suðaustan 10-18 metrar, hvassast við austurströndina og víða talsverð rigning, mikil rigning suðaustan til, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 9 til 14 stig að deginum.

Á miðvikudag:

Suðaustan 13-20 metrar á sekúndu og talsverð eða mikil rigning víða austan til, en mun hægara og úrkomulítið fyrir vestan. Dregur mjög úr vindi og vætu um kvöldið. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast norðaustan lands.

Á fimmtudag:

Austlæg átt, 8-13 metrar á sekúndu og dálítil rigning austan til, en annars skýjað með köflum, þurrt og milt veður.

Á föstudag, laugardag og sunnudag:

Útlit fyrir stífar austlægar áttir með vætu í flestum landshlutum og lítið eitt svalara veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×