Handbolti

Ellefu íslensk mörk í stórtapi Kristianstad

Ólafur átti góðan leik í dag.
Ólafur átti góðan leik í dag. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen slátraði Kristianstad í Meistradeildinni Evrópu í handbolta í dag, en lokatölur urðu þrettán marka sigur Ljónanna frá Þýskalandi, 35-22.

Ljónin voru betri á öllum sviðum handboltans í dag og leiddu með sex mörkum í hálfleik, 18-12. Þeir héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og unnu eins og áður segir, 35-22.

Ólafur Guðmundsson var markahæstur heimamanna í Kristianstad með sex mörk, Arnar Freyr Arnarsson kom næstur með fjögur og Gunnar Steinn Jónsson skoraði eitt. Íslendingarnir skoruðu því helminginn af mörkum sænska liðsins.

Löwen, með Guðjón Val Sigurðsson og Alexander Petersson innanborðs, eru með sex stig eftir leikina fjóra sem búnir eru, en Kristianstad er einungis með eitt.

Stefán Rafn Sigurmannsson og félagar í Pick Szeged gerðu jafntefli við HC Vardar á heimaelli, 26-26, en Stefán Rafn og félagar voru 14-13 yfir í hálfleik.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði tvö mörk úr þremur skotum, en Szeged er með fimm stig eftir fyrstu fjóra leikina. Varder er á toppnum með sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×