Innlent

Má búast við hríðarveðri á fjallvegum í kvöld

Birgir Olgeirsson skrifar
Djúp lægð er á leið yfir landið og má búast við hríðarveðri víða á fjallvegum.
Djúp lægð er á leið yfir landið og má búast við hríðarveðri víða á fjallvegum. Vísir/Vilhelm
Spáð er snjókomu á Gemlufallsheiði síðar í kvöld og einnig á fallvegum á sunnanverðum Vestfjörðum og Steingrímsfjarðarheiði. Er reiknað með að það verði hvasst um tíma og blint á þessum fjallvegum. 

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar en þar segir að Norðanlands í kvöld megi reikna með krapa á vegum, með tilheyrandi hálku alveg niður undir 150-200 metra hæð og snjóar ofar, þar á meðal á Vatnsskarði, Þverárfjalli og Öxnadalsheiði. Eins á Víkurskarði í nótt og í fyrramálið.

Lagast mikið fyrir vestan í nótt og þegar kemur fram á morguninn norðanlands.

Í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands er greint frá djúpri lægð skammt noraðn við Melrakkasléttu. Það valdi þessu hvassvirði og talsverðri rigningu eða slyddu á láglendi norðvestan- og norðanlands. Á fjallvegum má búast við hríðarveðri, til dæmis á Vestfjörðum, Holtavörðuheiði, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Batnandi veður á þessum slóðum á morgun þegar lægðin fer til norðausturs og fjarlægist landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×