Handbolti

Aron Pálmars í útvarpsviðtali á Spáni: Eiður Smári hefur hjálpað mér mikið síðan ég kom

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/EPA
Spænskur úrvarpsmaður á RAC1 útvarpsstöðinni í Barcelona var mjög áhugasamur um tengsl handboltamannsins Arons Pálmarssonar við íslensku knattspyrnugoðsögnina Eið Smára Guðjohnsen.

Aron varð á dögunum leikmaður handboltaliðs Barcelona en Eiður Smári spilaði með fótboltaliðinu á árunum 2006 til 2009 og vann meðal annars þrennuna undir stjórn Pep Guardiola tímabilið 2008-2009.

Aron var í viðtali hjá RAC1 og ræddi þar um félagsskipti sín frá Ungverjalandi til Barcelona. Barcelona keypti upp samning hans við Veszprém en Aron hafði ekkert æft né spilað með ungverska liðinu á leiktíðinni.

Útvarpsmaðurinn spurði Aron út í Eið Smára Guðjohnsen sem er einn af þremur öðrum íþróttamönnum sem hafa spilað með aðalliði Barcelona. Hinir eru handboltamennirnir Viggó Sigurðsson og Guðjón Valur Sigurðsson.

„Mamma mín segir að hann sé frændi minn. Ég veit ekki hversu skyldir við erum en ég trú því útaf því að manna segir það,“ sagði Aron. Hann hefur verið í samskiptum við Eið Smára.

„Ég þekki Eið mjög vel og það fer mjög vel á með okkur. Þegar Barcelona hafði samband þá hringdi ég í hann og spurði hann út í lífið í borginni og um félagið,“ sagði Aron.

„Eiður veit ekki mikið um handbolta af því að hann spilaði fótbolta. Þegar allt kemur til alls þá er þetta sami klúbbur. Hann sagði mér bara góða hluti um félagið og þetta var því auðvelt ákvörðun fyrir mig. Hann sá ekkert neikvætt við það að búa í Barcelona og talaði um hversu frábært það sé að vera í Katalóníu,“ sagði Aron og bætti við:

„Eiður hefur líka hjálpað mér mikið síðan að ég kom til Barcelona. Hann hjálpaði mér að finna heimili, að kynnast borginni og að geta hlutina hér rétt,“ sagði Aron en það er hægt að hlusta á allt viðtalið hér eða með því að smella hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Aron: Draumar rætast

Barcelona kynnti Aron Pálmarsson formlega til leiks á blaðamannafundi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×