Golf

Slakur lokahringur hjá Ólafíu sem lauk leik í 35. sæti í Kína

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ólafía Þórunn slær hér upphafshögg á mótaröðinni fyrr á þessu ári.
Ólafía Þórunn slær hér upphafshögg á mótaröðinni fyrr á þessu ári. vísir/getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hafnaði í 35. sæti ásamt þremur öðrum kylfingum á Blue Bay Classic mótinu í Kína sem lauk nú í morgun en þetta var seinasta mót Ólafíu á fyrsta keppnistímabili hennar á þessari sterkustu mótaröð heims.

Ólafía hóf hringinn í 23-25. sæti eftir að hafa leikið þriðja hring mótsins á einu höggi undir pari en hún var lengi af stað á lokadeginum í dag.

Byrjaði hún daginn á skolla á fyrstu braut sem hún fékk fugl á deginum áður og fékk annan skolla á fjórðu braut. Tveir skollar til viðbótar fylgdu á fyrri níu og var hún á fjórum höggum yfir pari þegar lokahringurinn var hálfnaður.

Tveir skollar á fyrstu tveimur brautum seinni hluta vallarins þýddi að Ólafía var skyndilega komin sex höggum yfir pari á deginum en hún náði aðeins að laga stöðuna með tveimur fuglum á 13. og 14. braut.

Þýddi það að hún lék daginn á fjórum höggum yfir pari og lauk mótinu á sjö höggum yfir pari en hún var þrettán höggum frá heimakonunni Shanshan Feng sem vann mótið á níu höggum undir pari.

Var þetta 25. mót hennar á mótaröðinni á fyrsta tímabili hennar en hún var í 73. sæti peningalistans fyrir þetta mót með rúmlega 210 þúsund dollara í verðlaunafé.

Ætti það að tryggja henni fullan þátttökurétt á LPGA-mótaröðinni á næsta ári en hún verður ekki meðal efstu kylfinga sem taka þátt í lokamóti mótaraðarinnar í Flórída um næstu helgi.

Það þýðir þó ekki að Ólafía sé hætt en hún verður hluti af Evrópuúrvali sem tekur þátt í The Queens mótinu í Japan í byrjun desember en einnig tekur hún þátt í sérstöku styrktarmóti hjá vinkonu sinni, Söndru Gal frá Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×