Handbolti

Stórleikur Ómars dugði ekki til

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ómar Ingi í leik með landsliðinu.
Ómar Ingi í leik með landsliðinu. vísir/afp
Ómar Ingi Magnússon fór á kostum og skoraði fimm mörk og gaf sjö stoðsendingar fyrir Århus þegar liðið mætti Bjerringbro-Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Gestirnir voru yfir 17-20 í hálfleik og fóru að lokum með 32-34 sigur.

Århus náði að minnka muninn niður í eitt mark 32-33 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Hvorugu liði tókst hins vegar að skora fyrr en Jacob Lassen innsiglaði sigur Bjerringbro þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum.

Róbert Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Århus eins og Sigvaldi Guðjónsson.

Janus Daði Smárason skoraði tvö af mörkum Ålborg sem tapaði 30-26 á útivelli gegn GOG.

Jafnt var með liðunum framan af og aðeins munaði einu marki í hálfleik, 15-14. Heimamenn komu sterkari úr leikhléi og náðu fljótt fjögurra marka forystu sem þeir héldu að mestu út leikinn.

Skjern bar sigurorð af Midtjylland 25-24. Tandri Már Konráðsson náði ekki að skora fyrir Skjern, hann átti í raun ekki skot að marki. Hann gaf hins vegar eina stoðsendingu.

Skjern er með tveggja stiga forystu á GOG á toppi deildarinnar eftir 14. umferðir. Ålborg er í fimmta sæti með 16 stig og Århus í því áttunda með 13.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×