Handbolti

Norska liðinu undir stjórn Þóris mistókst að verja gullið

Kalidiatou Niakate fagnar eina marki sínu í leiknum.
Kalidiatou Niakate fagnar eina marki sínu í leiknum. Vísir/AFP
Franska kvennalandsliðið í handbolta tók gullverðlaunin á HM í handbolta eftir 23-21 sigur í úrslitaleiknum gegn Noregi í Þýskalandi nú rétt í þessu.

Er þetta í fyrsta skiptið í fjórtán ár sem franska kvennalandsliðið tekur gullið á HM en nú eru bæði karla- og kvennalið Frakka ríkjandi Heimsmeistarar.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af, franska liðið leiddi fyrstu mínúturnar en þær norsku tóku við sér og leiddu stærstan hluta hálfleiksins.

Franska vörnin var hinsvegar gríðarlega sterk og náði að loka fyrir markið og taka eins marks forskot í hálfleik 10-11.

Þórir gefur skipanir af hliðarlínunni í dag.Vísir/AFP
Franska liðið náði snemma seinni hálfleiks þriggja marka forskoti en þær norsku neituðu að gefast upp og jöfnuðu metin fimm mínútum fyrir leikslok.

Á lokametrunum náði franska liðið aftur að setja í lás í vörninni og ná forskoti sem norska liðinu tókst ekki að brúa.

Þurftu þær því að horfa á eftir gullinu og titlinum til Frakklands og sætta sig við silfrið en norska liðið hefur verið svo gott sem óstöðvandi undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×