Innlent

Rauð jól á suð­vestur­horninu en hvít jól annars staðar á landinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verða rauð jól í Reykjavík í ár, sem og annars staðar á suðvesturhorninu.
Það verða rauð jól í Reykjavík í ár, sem og annars staðar á suðvesturhorninu. Vísir/GVA
Það verða hvít jól nánast um allt land nema á suðvesturhorninu við Faxaflóa segir Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins vakna við auða jörð nú á aðfangadagsmorgun og segir Daníel líkur á einhverjum éljum síðdegis. Ef þau koma verður það þó ekki mikið.

Aðspurður hvort að það muni eitthvað snjóa í Reykjavík á morgun, jóladag, segir Daníel að ef það komi ekki él síðdegis í dag þá sé engin úrkoma í kortunum næstu tvo til þrjá daga.

Það er hins vegar snjór nánast um allt Norðurland og þá hefur snjóað víða á Suðurlandi. Þá hélt áfram að snjóa á Vestfjörðum í nótt og á Austurlandi er víða snjóhula og éljagangur. Í Vestmannaeyjum er svo líka kominn snjór.

Spurður út í ferðaveðrið segir Daníel að það séu snjóþekja og hálkublettir víða um land. Margar heiðar séu opnar en það geti þó verið lélegt skyggni víða. Nánari upplýsingar um færð á vegum má nálgast á vef Vegagerðarinnar.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Norðaustan 10-18 m/s, en heldur hægari NA-lands. Víða él og frost 0 til 7 stig. Norðan 8-13 á morgun. Bjartviðri sunnan heiða, annars él. Frost 2 til 10 stig, kaldast í innsveitum. Norðaustan 13-18 og snjókoma við norðurströndina annað kvöld.

Á þriðjudag (annar í jólum) og miðvikudag:

Norðaustanátt 5-10 m/s en víða 10-15 við ströndina. Él norðan til á landinu, en bjartviðri syðst. Frost 2 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Á fimmtudag og föstudag:

Austlæg átt með éljum austanlands, allra nyrst og við suðurströndina, annars skýjað með köflum. Áfram kalt í veðri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×