Innlent

Snjókoma og stormur næsta sólarhringinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það mun snjóa á höfuðborgarsvæðinu annað kvöld.
Það mun snjóa á höfuðborgarsvæðinu annað kvöld. Vísir/ANton
Það verður hvöss austanátt allra syðst í dag og getur vindhraði farið í meira en 20 m/s. Annars staðar á landinu verður vindur mun hægari að sögn Veðurstofunnar. Þá má búast við éljagangi, einkum austantil og við norðurströndina en bjartviðri verður um landið vestanvert.

Lægir víðast hvar í kvöld og nótt. Veðrið verður hið þokkalegasta framan af degi á morgun en síðan vaxandi suðlæg átt og útlit fyrir að geti snjóað allmikið seint annað kvöld og fram eftir nóttu vestantil. Á það jafnframt við um höfuðborgarsvæðið. Því næst færast skilin austur yfir land.

Á eftir skilunum kemur hægari vestlæg átt og úrkomulítið veður en áfram verður frost um mest allt land.

Þegar þessi lægð er farin hjá seint á laugardag lítur út fyrir að mesti kuldakaflinn sé liðinn hjá í bili og við tekur lægðagangur með hvössum suðlægum áttum, vætu og hlýindum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Norðaustan og austan 3-10 m/s og skýjað með köflum, en stöku él við N- og A-ströndina, jafnvel einnig á V-landi um kvöldið. Frost 2 til 12 stig, mest í innsveitum fyrir norðan.

Á laugardag:


Vestlæg átt, 5-13 m/s með snjókomu á köflum og vægu frosti, en slyddu við SV-stödina og hita nálægt frostmarki. Breytileg átt og þurrt að kalla um kvöldið.

Á sunnudag:

Gengur í suðaustan hvassviðri eða storm með slyddu og síðar rigningu, en úrkomulítið á N- og A-landi. Hlýnandi veður.

Á mánudag og þriðjudag:

Áframhaldandi suðlægar áttir með rigningu, einkum S- og V-til og milt veður.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir minnkandi vind og úrkomu og kólnar smám saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×