Innlent

Klukkan tifar á stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins

Heimir Már Pétursson skrifar
Aðilar almenna vinnumarkaðarins ásamt forystufólki samtaka starfsmanna ríkis og sveitarfélaga funduðu nú síðdegis með ráðherrum til að ræða hvernig stjórnvöld geta komið að gerð kjarasamninga. Tæpir tveir mánuðir eru þar til endurskoðunarákvæði samninga á almenna markaðnum tekur gildi.

Eitt stærsta verkefni ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og kannski prófsteinninn á hana verður hvernig til tekst að ná samkomulagi á vinnumarkaðnum. Aðilar vinnumarkaðarins komu einmitt til fundar við ráðherra í ríkisstjórninni í Ráðherrabústaðnum í dag.

Þetta er annar óformlegur fundur fulltrúa Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambandsins, samtaka starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum með leiðtogum stjórnarflokkanna þriggja. Það er mikil spenna á vinnumarkaðnum þar sem samningar starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eru margir lausir eða að losna og samkvæmt endurskoðunarákvæði samninga á almennum markaði væri hægt að segja þeim upp í lok febrúar.

Verkefni stjórnvalda og allra þeirra sem að koma er að tryggja að ekki fari af stað svo kallað höfrungahlaup á vinnumarkaðnum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra reiknar með að fundirnir eigi eftir að verða fleiri áður en samkomulag næst.

„Við erum bara að hittast hér með óformlegum hætti. Stjórnvöld og fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði til að fara yfir stöðuna. Þannig að það er markmið fundarins. Það er ekki stefnt að neinni niðurstöðu í hans lok. Þetta er bara vinna sem er í gangi,“ sagði Katrín áður en hún hélt til fundarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×