Innlent

Umferðin gengið afar hægt í morgun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikið hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu og gekk umferðin þar af leiðandi hægt í morgun.
Mikið hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu og gekk umferðin þar af leiðandi hægt í morgun. vísir/vilhelm
Umferðin á höfuðborgarsvæðinu hefur gengið afar hægt í morgun að sögn Guðbrands Sigurðssonar, aðalvarðstjóra í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Engin slys hafa þó verið tilkynnt til lögreglunnar það sem af er morgni.

Þannig hafa vegfarendur úr efri byggðum Reykjavíkur, Mosfellsbæ og Hafnarfirði verið upp undir 60 mínútur á leiðinni til vinnu en fréttastofa hefur einnig heyrt af fólki sem var allt að 100 mínútur á leiðinni frá Hafnarfirði.

Guðbrandur segir að þetta hafi verið viðbúið.

„Með snjókomu og mikilli umferð þá var þetta viðbúið. Þó að það sé rutt og reynt að salta þá snjóaði mikið ofan í þetta jöfnum  höndum þannig að það hægir líka mikið á umferðinni og þá teppist meira,“ segir Guðbrandur og bendir á að við venjuleg og góð akstursskilyrði er gríðarlega mikill umferðarþungi snemma á morgnana á höfuðborgarsvæðinu.

 

„Og hvað þá ef færð spillist vegna snjóa og hálku.“

Guðbrandur segir að það sé nú að greiðast úr umferðinni.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×