Innlent

Á annað hundruð bílar fastir á Hellisheiði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Búist er við slæmu veðri í kvöld.
Búist er við slæmu veðri í kvöld. Jóhann K. Jóhannsson
„Það eru eitthvað á annað hundruð bíla sem eru þarna á svæðinu,“ segir Þorvaldur Hallsson, svæðisstjóri hjá Landsbjörgu um ástandið á Hellisheiði og Sandskeiði. Mjög slæmt veður er á Hellisheiði.

Eru bílarnir ýmist fastir vegna veðurs eða fastir vegna annarra bíla sem eru fastir. Um 90 björgunarsveitarmenn eru nú að störfum á heiðinni sem ferja þá sem fastir eru upp á heiði til byggða eða aðstoða þá við að losa bílana.

Þorvaldur segist ekki geta sagt með fullri vissu hversu margir bílar séu fastir enda hafi björgunarsveitarmenn ekki komist lengra en að Litlu Kaffistofunni. Þá séu björgunarsveitir frá Hveragerði og Árborg að störfum hinum megin frá.

Telur Þorvaldur að um þrjá til fimm tíma taki til þess að koma öllum þeim til bjargar sem á aðstoð þurfi. Reynt verði að koma sem flestum af stað á ný en í það minnsta verði bílar færðir til svo að snjóruðningstæki geti komist leiðar sinnar.

Búið er að loka Hellisheiði sem og Þrengslum vegna veðurs. Þá hefur Mosfellsheiði, Lyngdalsheði, Fróðárheiði, Holtavörðuheiði einnig verið lokað vegna veðurs. Gul viðvörun er í gildi víðs vegar um land vegna veðurs til hádegis á morgun.

Ívar Halldórsson, útvarpsmaður á Bylgjunni, er einn af þeim sem fastur er á Hellisheiði. Í samtali við Vísi sagðist hann hafa verið á leið austur yfir heiði en verið snúið við. Aftakaveður sé á heiðinni og að umferðin í átt að höfuðborgarsvæðinu hafi færst um 50-70 metra síðustu klukkutímana. 

Ívar tók meðfylgjandi myndband en í því má sjá hvernig ástandið er á heiðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×