Innlent

Þreyta er komin í framhaldsskólakennara

Jóhann K. Jóhannsson og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Þreyta er komin í framhaldsskólakennara vegna stöðunnar í kjaraviðræðum þeirra við ríkið. Formaður Félags framhaldsskólakennara segir það ekki í boði að stéttin sé samningslaus svo mánuðum skiptir án þess að gripið sé til aðgerða.

Kjarasamningar framhaldsskólakennara við ríkið losnuðu árið 2016 og síðan þá hafa samninganefndir setið við samningaborðið þar sem fjallað hefur verið um nýtt vinnumat framhaldsskólakennara en viðræðurnar nú stranda á því málefni en framhaldsskólakennarar telja að ríkið hafi ekki efnt áður gefin loforð. Framhaldsskólakennarar vísuðu kjaraviðræðum sínum til ríkissáttasemjara í nóvember síðastliðnum. Guðríður Arnardóttir er formaður félags framhaldsskólakennara.

„Við teljum okkur ekki getað skrifað undir nýjan kjarasamning fyrr en við erum búin að fá fullar efndir á þeim fyrri. Það lítur að ákveðinni útfærslu á upptöku nýs vinnumats sem við tókum upp 2015 og svo náttúrulega styttingu námstíma til stúdentsprófs sem hefur tvímælalaust falið í sér viðbótarvinnu fyrir kennara og við viljum fá það metið.“

Fundur milli deiluaðila hefur verið boðaður í lok komandi vinnuviku en trúnaðarmenn félagsins hafa verið kallaðir til fundar á fimmtudag. Guðríður segir framhaldsskólakennara orðna langþreytta.

„Það er ekkert hægt að bjóða fólki upp á það að vera samningslaus svo mánuðum skipti og auðvitað vilja framhaldsskólakennarar fara að fá launahækkanir eins og aðrir opinberir starfsmenn sem hafa verið að klára samninga á síðustu vikum. Mér finnst það ekki í boði að við förum að fara áleiðis inn í vorið samningslaus, Ég trúi því ekki að það verði raunin þegar á reynir.“


Tengdar fréttir

Framhaldsskólakennarar tilbúnir í „harðar aðgerðir“

Formaður Félags framhaldsskólakennara segir félagsmenn sína tilbúna í verkfall ef ekki nást samningar við ríkið á næstunni. Hún segir kjaraviðræður stranda á fjármögnun vinnumats kennara frekar en krónutölu launa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×