Handbolti

37 ára gamall maður dæmdur til að greiða Noru Mörk tvær milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk.
Nora Mörk. Vísir/Getty
Norski héraðsdómstóllinn, Forliksrådet, hefur dæmt 37 ára gamlan mann sekan af því að dreifa viðkvæmum myndum af norsku handboltakonunni Noru Mörk.

Maðurinn þarf að borga 150 þúsund norskar krónur í sekt eða rétt tæpar tvær milljónir króna.

„Nora Mörk er mjög ánægð með dóminn í Forliksrådet og hann sýnir það og sannar að það var þess virði af fara út í þessa baráttu gegn þessum manni sem og öðrum í sömu stöðu,“ sagði John Christian Elden, lögmaður Noru Mörk, í viðtali við Nettavisen.

John Christian Elden segir að sakborningurinn hafi mætt í réttarsalinn án lögmanns og hafi síðan talað um að sektin hafi verið alltof há. Hann á möguleika á því að áfrýja þessum dómi.

Nora Mörk hefur alls kært fimmtán menn fyrir að dreifa myndum af sér. Myndirnar komu úr síma hennar sem óprútnum aðilum tókst að brjótast inn í.  Myndirnar gengu síðan á milli manna á netinu.

Mál Noru Mörk vakti mikla athygli ekki síst í kringum EM í Króatíu í byrjun ársins þar sem hún sakaði leikmenn í norska karlalandsliðinu um að hafa dreift myndunum af sér.

Nora hótaði því í framhaldinu að hætta að gefa kost á sér í norska kvennalandsliðið í handbolta en hún er ein af bestu handboltakonum heims.

Þetta mál var Noru Mörk mjög erfitt og hún lenti síðan í því að slíta krossband í hné á miðju tímabili. Þórir Hergeirsson, þjálfari norska landsliðsins, hefur hinsvegar verið henni stoð og stytta og hefur Nora hrósað honum opinberlega fyrir mikinn stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×