Handbolti

Axel: Skil ekki dómgæsluna í þessum leik

Benedikt Grétarsson skrifar
Axel Stefánsson.
Axel Stefánsson. vísir/stefán
Landsliðsþjálfarinn Axel Stefánsson var að sjálfsögðu svekktur eftir 24-26 tap Íslands gegn Tékklandi í Laugardalshöll í kvöld í síðasta heimaleik liðsins í undankeppni EM 2018. Axel tók undir orð blaðamanns að slæm byrjun hefði sett liðið í erfiða stöðu líklega grafið of djúpa holu.

„Já við gerðum það. Það var svolítið óðagot á okkur í byrjun og við tókum mörg ótímabær skot sem við fáum í bakið. Það var samt mikill vilji í liðinu og stelpurnar ætluðu virkilega að koma hérna, sýna sig og sanna.“

„Seinni hálfleikurinn sýnir bara hversu mikill karakter býr í þessu liði. Við komumst hægt og sígandi inn í þetta og eiginlega bara grátlegt að við náum ekki að klára þetta í dag.“

Dómgæslan var á köflum ansi skrautleg og pólska dómaraparið var ekki í neinum takti við handboltareglurnar á mikilvægum augnablikum. Axel viðurkennir að þetta hafi ekki alveg verið nógu gott.

„Já, því miður verður maður bara að sætta sig við það. Við verðum bara að verða svo gott handboltalið að við getum klárað svona stöður en það var mjög margt skrýtið í dómgæslunni í dag. Ég skil ekki alveg allar ákvarðanir þeirra.“

Erfiður leikur bíður á laugardag í síðasta leik undankeppninnar gegn Dönum og Axel vill sjá agaðri leik hjá sínu liði.

„Á móti Dönum verður það bara dauði ef við ætlum að taka fyrstu sénsa á skotfæri. Þær eru með miklu betri markmenn og betri varnarvinnu. Þegar við sýnum að við getum náð flæði í boltann og gerum þessar árásir, þá eigum við alveg að geta fært Danina til í vörninni.“

„Það eru margar í hópnum sem hafa ekki spilað í langan tíma en nú erum við komnar með einn alvöru leik í kroppinn og þetta verður bara betra,“ sagði landsliðsþjálfarinn Axel Stefánsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×