Innlent

Ljósmóðir gagnrýnir útreikninga fjármálaráðuneytisins: „Þetta eru brellur til að gera lítið úr okkar málflutningi“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ella birti skjáskot af síðasta launaseðli sínum á Facebook í kjölfar útgáfu yfirlýsingar ráðuneytisins.
Ella birti skjáskot af síðasta launaseðli sínum á Facebook í kjölfar útgáfu yfirlýsingar ráðuneytisins. Mynd/Samsett
Ella Björg Rögnvaldsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, segir yfirlýsingu fjármálaráðuneytisins um kjaramál ljósmæðra gera lítið úr málflutningi þeirra. Hún segir tölur ráðuneytisins enn fremur ekki lýsandi fyrir raunveruleg laun ljósmæðra.

Í yfirlýsingu fjármálaráðuneytisins sem birt var í dag var vakin sérstök athygli á því að árið 2008 fengu ljósmæður 16% hækkun umfram önnur BHM-félög. Frá þeim tíma hafi ljósmæður fengið sömu hækkanir og aðrir félagsmenn. Þá hafi meðaldagvinnulaun ljósmæðra miðað við fullt starf verið 573 þúsund krónur árið 2017 og meðalheildarlaun miðað við fullt starf sama ár hafi verið 848 þúsund konur.

„Brellur“ til að draga úr trúverðugleika

Ella Björg, sem er ein þeirra sem sagði upp störfum sem ljósmóðir á Landspítalanum um mánaðamótin, gefur lítið fyrir þessa útreikninga fjármálaráðuneytisins.

„Þetta eru brellur til að gera lítið úr okkar málflutningi og til að gera okkur ótrúverðugar. Ég get ekki séð neinn annan tilgang með þessu,“ segir Ella í samtali við Vísi en hún birti skjáskot af síðasta launaseðli sínum á Facebook í kjölfar útgáfu yfirlýsingar ráðuneytisins. Launaseðil Ellu má sjá hér að neðan.



Ómögulegt að vinna fullt starf

Ella segir launaseðil sinn, sem gerir ráð fyrir rétt um 461 þúsund krónum í mánaðarlaun fyrir fullt starf, gefa mun raunsærri mynd af kjörum ljósmæðra en er að finna í útreikningum fjármálaráðuneytisins. Það heyri til undantekninga að ljósmæður vinni fullt starf.

„Vegna þess að við búum við hvíldartímaákvæði. Við getum ekki unnið meira en 80 prósent vinnu án þess að brjóta hvíldartímaákvæðið,“ segir Ella.

„Burtséð frá því eru 848 þúsund krónur í heildarlaun, fyrir að vinna nætur-, kvöld-, helgar- og stórhátíðir, ekki einu sinni há laun.“

Ella hefur sjálf deilt fleiri skjáskotum af launaseðlum ljósmæðra sem allar segja svipaða sögu. Aðrar ljósmæður hafa einnig birt skjáskot af eigin launaseðlum en einhverjar færslnanna má sjá hér að neðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×