Handbolti

Haukur með 12 mörk í þriðja sigri Íslands

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Haukur Þrastarson.
Haukur Þrastarson. vísir/stefán
Íslensku strákarnir í U18 ára landsliðinu í handbolta unnu öruggan sigur á Slóvenum í lokaleik sínum í riðlinum á EM U18 í Króatíu.

Sigur íslenska liðsins var í raun aldrei í hættu, þeir voru komnir með góða forystu snemma leiks. Staðan í hálfleik var 15-8 fyrir íslenska liðið.

Slóvenarnir gáfust ekki upp og náðu aðeins að saxa á forskotið í seinni hálfleik en þeir ógnuðu íslenska sigrinum þó ekki mikið. Lokatölur urðu 24-28.

Tveir leikmenn Íslands fengu að líta rauða spjaldið í leiknum. Tjörvi Týr Gíslason var rekinn út af í fyrri hálfleik og Eiríkur Þórarinsson fékk sína þriðju tveggja mínútna brottvísun í seinni hálfleik.

Selfyssingurinn Haukur Þrastarson var í sérflokki í leiknum og skoraði 12 mörk.

Ísland sigraði D-riðilinn örugglega með fullt hús stiga og fer áfram í milliriðil. Fyrsti leikurinn þar er eftir tvo daga, á þriðjudag. Svíar munu líklega fylgja þeim þangað, þeir mæta Pólverjum seinna í dag í lokaleik riðilsins.

Mörk Íslands: Haukur Þrastarson 12/19, Dagur Gautason 3/6, Arnar Máni Rúnarsson 3/3, Rumi Steinn Rúnarsson 3/9, Stiven Tobar Valencia 3/3, Arnór Snær Óskarsson 1/5, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 1/3, Eiríkur Þórarinsson 1/2, Jón Bald Freysson 1/2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×