Handbolti

Patrekur: Virkilega gaman að taka þátt í þessu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Selfoss mætir Klaipeda Dragunas, frá Litháen, í Evrópukeppni félagsliða en fyrri leikur liðanna fer fram á laugardaginn.

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga, fór yfir stöðuna í samtali við Guðjón Guðmundsson en Patrekur segir að Klaipeda sé hörku gott lið.

„Við erum með leik á laugardaginn og maður finnur í bæjarfélaginu að það er mikil stemning,” sagði Patrekur í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það er ekki búið að spila Evrópuleik í rúmlega tuttugu ár. Við hlökkum mikið til. Við stóðum okkur vel í fyrra og þetta var besti árangurinn í sögu félagsins. Væntingarnar verða meiri. Við erum búnir að æfa vel.”

„Haukur er búinn að vera mikið með landsliðinu og Elvar meiddur en núna í þessari viku erum við fullmannaðir.”

Selfoss bætti við sig markmanni í sumar og segir Patrekur að hann styrki liðið mjög.

„Við erum komnir með Pavel, markmann frá Póllandi, svo ég er bjartsýnn en þetta gæti tekið tíma. Við þurfum að nýta þessa viku vel og vera klárir á laugardaginn.”

„Markmiðið okkar er að komast áfram. Þetta er hörkulið sem við mætum. Við þurfum að eiga mjög góðan leik.”

Selfoss átti frábært síðasta tímabil og datt út í undanúrslitunum í Íslandsmótinu gegn FH eftir stórbrotið einvígi.

„Þetta eru verðlaun fyrir góðan árangur í fyrra. Það er nauðsynlegt að spila gegn sterkum liðum og þetta gefur strákunum mikið og gefur bæjarfélaginu mikið. Ég sé þetta bara jákvætt en við þurfum að vera klárir á laugardaginn.”

Selfoss er á leið í nýtt hús og spilar í Iðu, sem heitir nú Hleðsluhöllin, og færir sig úr Vallaskólanum.

„Það var alltaf gaman að spila í Vallaskóla en mér líst mjög vel á Hleðsluhöllina og þetta er fínasta aðstaða. Mér finnst þetta jákvætt og sannfærður um það að það verði sama góða stemningin. Það er virkilega gaman að taka þátt í þessu.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×