Handbolti

Strákarnir hans Arons unnu 24 marka sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. Vísir/Getty
Sigurganga landsliðs Barein hélt áfram í morgun á Asíuleikunum í handbolta en liðið var fyrir leikinn búið að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum.

Barein vann 24 marka sigur á Hong Kong í dag, 43-19, eftir að hafa verið tíu mörkum yfir í hálfleik, 21-11.

Aron Kristjánsson tók við landsliði Barein af Guðmundi Guðmundssyni og liðið hefur unnið alla sex leiki sína á þessu fyrsta stórmóti undir stjórn nýja þjálfarans.

Mahmood Salman átti rosalega leik í dag en hann nýtti öll fjórtán skotin sín í leiknum. Níu marka hans komu úr hraðaupphlaupum. Næstmarkahæstur var Husain Mohamed með sex mörk.

Barein vann alla leiki sína í milliriðlinum á móti Íran (29-23), Suður-Kóreu (27-25) og nú Hong Kong (43-19). Í riðlakeppninni vann liðið Írak (30-24), Indland (32-25) og Taívan (37-21).

Barein mætir Katar, Japan eða Írak í undanúrslitunum en það ræðst ekki fyrr en seinna í daga hvaða tvö af þessum fyrrnefndu liðum tryggja sig áfram úr hinum milliriðlinum.

Barein endaði í þriðja sæti á síðustu Asíuleikum árið 2014 en Katar og Suður-Kórea voru þá í sætunum fyrir ofan. Það er líka eina skiptið sem handboltalandslið Barein hefur komist svona langt á leikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×