Handbolti

Aron kemur inn í undanúrslitin á móti Evrópumeisturunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson mætir Evrópumeisturunum á ný.
Aron Pálmarsson mætir Evrópumeisturunum á ný. vísir/epa
Aron Pálmarsson, leikstjórnandi spænska stórliðsins Barcelona, verður með Börsungum á móti Evrópumeisturum Montpellier í undanúrslitum heimsmeistarakeppni félagsliða á morgun.

Barcelona lagði Asíumeistara Al-Najma Club í dag með níu marka mun, 37-28, þar sem að Aron var hvíldur.

Þrjár breytingar má gera á leikmannahópnum á HM félagsliða og nýttu Börsungar sér það í dag. Aron kemur inn fyrir línumanninn pólska Kamil Syprzak.

Montpellier varð nokkuð óvænt Evrópumeistari í vor þegar að liðið lagði Nantes í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en liðið hefur farið erfiðlega af stað í vetur.

Liðin eru saman í riðli í Meistaradeildinni og vann Barcelona fyrri leik liðanna á heimavelli, 35-27, fyrir tíu dögum síðan. Aron skoraði tvö mörk í tveimur skotum í leiknum og stýrði sóknarleiknum af mikilli snilld.

Börsungar taka þátt í HM félagsliða sem ríkjandi heimsmeistarar en Montpellier sem Evrópumeistari. Töluverður gæðamunur verður á undanúrslitaleikjunum þar sem að Füchse Berlín mætir liði frá Barein eða Ástralíu í hinum undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×