Handbolti

Guðjón Valur með ellefu mörk í sigri og Teitur skoraði níu fyrir Kristianstad

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þessi maður er ótrúlegur.
Þessi maður er ótrúlegur. vísir/getty
Guðjón Valur Sigurðsson var stórkostlegur er Rhein-Neckar Löwen lenti í engum vandræðum með Montpellier í Meistaradeild Evrópu í handbolta. Lokatölur tíu marka sigur Löwen, 37-27.

Þjóðverjarnir voru 16-13 yfir í hálfleik en stigu á bensíngjöfina í síðari hálfleik og unnu að lokum öruggan sigur á franska liðinu. Vandræði hjá franska stórveldinu.

Guðjón Valur var frábær í vinstra horninu hjá Löwen en hann skoraði ellefu mörk úr fjórtán skotum. Markahæsti maður vallarins en Alexander Ptersson bætti við tveimur mörkum úr fimm skotum.

Ljónin eru á toppi A-riðilsins með tíu stig rétt eins og Vardar og Barcelona en tvö síðarnefndu liðin eiga leik til góða á Löwen. Montpellier er með eitt stig eftir sjö leiki.

Barcelona lenti í engum vandræðum með Logrono í spænsku úrvalsdeildinni. Börsungar unnu tólf marka sigur, 41-19, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik 20-16.

Aron skoraði fjögur mörk úr sex skotum en hann dældi einnig út stoðsendingum. Barcelona er með fullt hús stiga eftir níu leiki og er með sjö stiga forskot á næstu lið.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur í liði Kristianstad sem hafði betur gegn Ystads, 26-23, á heimavellli í sænsku úrvalsdeildinni. Staðan í hálfleik var 16-7 en meistararnir slökuðu á í síðari hálfleik.

Selfyssingurinn gerði níu mörk og var markahæsti maður vallarins. Ólafur Guðmundsson bætti við einu marki fyrir Kristianstad en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað fyrir Kristianstad sem er á toppnum með átján stig eftir tíu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×