Innlent

Héraðs­dómur hafnaði kröfu þing­manna Mið­flokksins um gagna­öflun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bára naut mikils stuðnings í héraðsdómi í vikunni þegar málið var tekið fyrir.
Bára naut mikils stuðnings í héraðsdómi í vikunni þegar málið var tekið fyrir. Vísir/Vilhelm
Kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins um gagnaöflun og vitnaleiðslur fyrir dómi vegna hugsanlegrar málssóknar gegn Báru Halldórsdóttur hefur verið hafnað af Héraðsdómi Reykjavíkur. Greint er frá þessu á vef Stundarinnar en úrskurður var kveðinn upp nú rétt fyrir hádegi.

Ragnar Aðalsteinsson, annar lögmanna Báru Halldórsdóttur, segir í samtali við Vísi að þessi úrskurður dómsins hafi ekki komið á óvart. Samkvæmt fordæmum Hæstaréttar séu gerðar mjög strangar kröfur til sóknaraðila til þess að hann fái að afla gagna með þessum hætti áður en hann höfðar mál.

Í upphafi hafi ekki verið ljóst hver tók samræður þingmannanna á Klaustur Bar upp en daginn eftir að beiðni barst til dómsins um gagnaöflun steig Bára fram og greindi frá því að hún væri sú sem tók samræðurnar. Þar með megi segja að forsendurnar hafi meira og minna horfið.

Málflutningur um kröfu þingmannanna fór fram síðastliðinn mánudag. Fjöldi fólks mætti til að styðja Báru í héraðsdómi en óljóst er hver næstu skref eru nú í málinu.

Þingmennirnir geta áfrýjað úrskurði héraðsdóms til Landsréttar en ekki liggur fyrir hvort það verði gert. Þeir hafa enn ekki tilkynnt að þeir ætli að höfða mál gegn Báru að sögn Ragnars en þeir eru hafa leitað til Persónuverndar vegna upptökunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Tengdar fréttir

Líkamlega örþreytt en andlega hamingjusöm eftir gærdaginn

Fjölmenni beið Báru Halldórsdóttur, sem hljóðritaði samtal þingmanna á Klaustri bar 20. nóvember síðastliðinn, er hún gekk inn í Héraðsdóm Reykjavíkur í gær. Fólk hvatti hana til dáða og sýndi henni stuðning með nærveru sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×