Sport

Keppt í CrossFit um miðja nótt í Perlunni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson.
Björgvin Karl Guðmundsson. Mynd/Instagram/bk_gudmundsson
Björgvin Karl Guðmundsson og Frederik Aegidius munu keppa í CrossFit á snúningsgólfinu á efstu hæð í Perlunni aðfaranótt föstudags.

Aðfaranótt föstudags verður þriðja æfingin í CrossFit Games Open keppninni opinberuð og verður það gert í beinni útsendingu frá Perlunni.

CrossFit Games Open er rafræn keppni sem fer þannig fram að í hverri viku er opinberuð æfing sem hver sem er getur tekið þátt í. Þeir 20 efstu þegar keppni er lokið í karla og kvennaflokki fá svo sæti á heimsleikunum.

Tvær af fimm æfingum hafa verið kynntar og framkvæmdar og sem stendur er Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir efst, Annie Mist Þórisdóttir í sjötta sæti og Katrín Tanja Davíðsdóttir í fjórtánda sæti í kvennaflokki.

Björgvin Karl er sá fimmti í karlaflokki.

Á síðasta ári var ein af æfingunum það árið opinberuð á Íslandi og var það í fyrsta skipti sem það var gert. Þá kepptu dæturnar þrjár, Katrín Tanja, Annie Mist og Ragnheiður Sara, sín á milli í húsakynnum CrossFit Reykjavík og horfðu 3,2 milljónir manna á beina útsendingu á netinu.

Björgvin, sem er sigursælastur íslenskra karla, keppir við Frederik, sigursælasta Danann, í beinni útsendingu á netinu.

Heimsleikarnir fara svo fram um verslunarmannahelgina en Katrín Tanja og Ragnheiður Sara eru nú þegar komnar með farseðil þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×