Innlent

Réðst á dóttur sína og greip hana kverkataki

Jakob Bjarnar skrifar
Maðurinn réðst á dóttur sína þar sem hún var við störf í verslun í Reykjavík.
Maðurinn réðst á dóttur sína þar sem hún var við störf í verslun í Reykjavík. visir/vilhelm
Ónefndur faðir réðst á dóttur sína þar sem hún var við störf í verslun í Reykjavík og greip hana kverkataki. Hann ýtti henni utan í vegg með þeim afleiðingum að konan hlaut eymsli í vöðvum beggja vegna við háls og verk í hálsi, þótti sárt að kyngja með vægum dreifðum roða í koki. Þá hótaði maðurinn dóttur sinni því að hann ætlaði hann drepa hana. Var það til þess fallið að vekja með konunni ótta um líf sitt og velferð.

Árásin átti sér stað 10. maí 2016. Þolandinn kærði föður sinn sem var dæmdur í héraði fyrir líkamsárás, hótun og heimilisofbeldi.

Málinu var áfrýjað af hálfu föðurins en hann hafði ekki erindi sem erfiði. Landsréttur staðfesti dóm héraðs en þar var maðurinn dæmdur í tveggja mánaða fangelsisvist skilorðsbundna og til að greiða dóttur sinni 300 þúsund krónur auk dráttarvaxta og málsvarnarlaun. Við þann dóm bættist að manninum er gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals rúmlega 530 þúsund krónur.

Aðdragandi árásarinnar er tilgreindur í dómnum en hann er sá að konan hafði hringt í föður sinn og farið fram á að hann hætti að hafa afskipti af sér og sínu lífi. Þetta kallaði fram ofsareiði með manninum sem fór og hitti dóttur sína þar sem hún var við störf í verslun í borginni með áðurnefndum afleiðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×