Viðskipti erlent

Flugfélagið KLM hvetur fólk til þess að fljúga minna

Eiður Þór Árnason skrifar
Ef þú vilt samt fljúga þá tekur KLM þér eflaust með opnum örmum.
Ef þú vilt samt fljúga þá tekur KLM þér eflaust með opnum örmum. Getty/Horacio Villalobos
Í opnu bréfi frá forstjóra hollenska flugfélagsins KLM Royal Dutch Airlines eru viðskiptavinir hvattir til þess að taka „ábyrgar ákvarðanir þegar kemur að flugferðum“ og taka mið af loftslagsáhrifum þegar ferðir eru skipulagðar.

Bréfið er hluti af nýrri herferð KLM sem beinir sjónum sínum að sjálfbærni og loftlagsáhrifum farþegaflugs. Í markaðsefni fyrirtækisins er fólki sagt að íhuga hvort það sé hægt að fjölga fjarfundum á vinnustaðnum og draga þannig úr löngum flugferðum, eða taka lestina næst þegar tækifæri gefst.

Flugfélagið breiðir þessi skilaboð þó ekki út af góðmennskunni einni saman, þar sem það hikar ekki við að benda fólki sem vill fljúga að nýta sér kolefnisjöfnunarmöguleika flugfélagsins og hvetur um leið fólk til þess að taka með sér minni farangur. Flugfélagið er einnig duglegt að benda á að flugfloti þeirra sé einn sá sparneytnasti í heiminum.

Í tilkynningu frá félaginu segir að þó það vilji sannarlega hraða vegferð sinni í átt að sjálfbærni, þá sé það eftir sem áður fyrirtæki sem þurfi að skila hagnaði til að lifa af.

Gagnrýnendur, þar á meðal hollenskir stjórnmálamenn, hafa sakað félagið um grænþvott. Vilja þeir enn fremur sjá flugfélagið fara í róttækari aðgerðir á borð við að skylda farþega til að kolefnisjafna flugferðir sínar og að það dragi úr framboði á styttri flugferðum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×