Enski boltinn

Jürgen Klopp lærði ensku með því að horfa á Friends-þættina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp og vinirnir fimm í Friends þáttunum.
Jürgen Klopp og vinirnir fimm í Friends þáttunum. Samsett/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var aldrei í vandræðum með enskuna þegar hann mætti á svæðið sem nýr knattspyrnustjóri Liverpool í október 2015. Nú vitum við hverjum við getum þakkað það.

Jürgen Klopp viðurkenndi það í viðtali við Juliette Ferrington á BBC 5 Live að hann hafi notað bandarísku gamnaþáttaröðina Friends til að læra enskuna svona vel.

Friends var einn allra vinsælasti sjónvarpsþátturinn á árunum 1994 til 2004 og vinirnir fimm eru hluti af mótunarárum heillar kynslóðar, bæði í Bandaríkjunum sem og í Evrópu. Nú hafa þeir öðlast vinsældir hjá nýjum kynslóðum í gegnum Netflix og aðrar veitur.





Jürgen Klopp var meðal annars spurður út í karakterinn Joey Tribiani sem Matt LeBlanc lék á ógleymanlegan hátt í þáttunum. Klopp sagðist vera gáfaðri en Joey en ekki eins tungumjúkur.

„Ég lærði ensku með því að horfa á Friends þættina af því að það var auðvelt að skilja þá,“ sagði Jürgen Klopp í viðtalinu.

„Þú reynir síðan að horfa á kvikmyndir, því það er næst á dagskrá hjá þér. Í kvikmyndum eru notaðar mállýskur og þar er enskan ekki eins skýr. Ruslatal og allir þessir hlutir sem þú þarft að fylgjast með,“ sagði Klopp.

„Það er auðveldast fyrir Þjóðverja að hlusta á enskuna í Friends. Þar eru auðveld samtöl. Þú skilur næstum því hvert orð strax og þess vegna er það góð leið fyrir okkur til að læra enskuna,“ sagði Klopp.

En hverjum líkist Klopp mest í þáttunum. „Nei, nei, nei nei. Ég er hrifnari af stelpunum en strákunum. Ég get samt ekki leikið stelpu. Það er þá helst Joey, því miður. Ég er aðeins klárari en Joey en mér gekk ekki eins vel að tala við stelpurnar og hann,“ sagði Klopp og hermdi svo eftir Joey Tribiani.

„How you doing?,“ sagi Klopp léttur og bætti við: „Þetta var augljóslega ekki svona auðvelt fyrir mig í mínu lífi,“ sagði Klopp eins og sjá má hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×