Pep Guardiola gerði níu breytingar á liði Manchester City frá 2-2 jafntefli við Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Erling Haaland fékk leyfi til að fara til Noregs og vera viðstaddur jarðarför og þá er spænski miðjumaðurinn Rodri meiddur og líklega ekki meira með á leiktíðinni.
Watford sá vart til sólar frá upphafi gegn City-liði sem var með öll völd og komst einnig snemma yfir þökk sé fínasta marki Belgans Jérémy Doku.
Portúgalski miðjumaðurinn Matheus Nunes tvöfaldaði forskotið sjö mínútum fyrir hlé með frábæru vinstri fótar skoti utan teigs. Í millitíðinni hafði Watford skorað jöfnunarmark en það var dæmt af vegna brots í aðdragandanum.
Þegar skammt var eftir tókst Tom Ince, syni hörkutólsins Paul Ince, að minnka muninn fyrir Watford með glæsilegu skoti en nær komust gestirnir ekki.
Manchester City vann 2-1 sigur og er komið áfram í fjórðu umferð keppninnar og Pep Guardiola vonast til þess að verða sá fyrsti í sögunni til að vinna bikarinn í fimmta sinn.