Erlent

Ástralskir fjölmiðlar mótmæla leyndarhyggju

Kjartan Kjartansson skrifar
Helstu fjölmiðlafyrirtæki Ástralíu tóku höndum saman til að mótmæla leyndarhyggju stjórnvalda.
Helstu fjölmiðlafyrirtæki Ástralíu tóku höndum saman til að mótmæla leyndarhyggju stjórnvalda. Vísir/EPA
Forsíður ástralskra dagblaða voru „ritskoðaðar“ í morgun. Um var að ræða táknræn mótmæli helstu fjölmiðla landsins gegn umdeildum þjóðaröryggislögum Ástralíu sem fréttamenn segja að hafi múlbundið þá og skapað leyndarhyggju í landinu.

Búið var að sverta út meirihluta texta á forsíðum dagblaða eins og Daily Telegraph og Sydney Morning Herald í morgun. Þar var einnig rauður stimpill sem á stóð „leyndarmál“, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Með þessu vildu fjölmiðlarnir mótmæla hertum lögum sem þeir telja ógna rannsóknarblaðamennsku og rétti almennings til upplýsinga. Þeir segja ennfremur að vernd uppljóstrara sé ábótavant og að ströng meiðyrðalöggjöf þaggi niður í fréttaflutningi.

Mótmæli fjölmiðlanna má rekja til aðgerða ástralskra yfirvalda gegn opinbera fjölmiðlinum ABC og News Corp í sumar. Lögreglumenn gerðu þá húsleitir í höfuðstöðvum ABC og á heimili blaðamanns News Corp. Fjölmiðlar héldu því fram að húsleitirnar hefðu verið gerðar vegna þess að þeir höfðu birt greinar upp úr upplýsingum uppljóstrara, þar á meðal um ásakanir um stríðsglæpi ástralskra hermanna.

„Ástralía á það á hættu að verða leynilegasta lýðræðisríki heimsins,“ sagði David Anderson, forstjóri ABC, vegna mótmælanna í dag.

Michael Miller, formaður framkvæmdastjórnar News Corp, tísti mynd með forsíðum dagblaðanna í dag og hvatti Ástrala til að spyrja sig hvað stjórnvöld vildu fela fyrir þeim.

Ástralska ríkisstjórnin sagði í gær að mögulega yrðu þrír blaðamenn ákærðir í kjölfar húsleitanna í sumar. Scott Morrison, forsætisráðherra, sagði fjölmiðlafrelsi mikilvægt lýðræðinu en að halda yrði uppi lögum og reglum.


Tengdar fréttir

Telja húsleitir ógna fjölmiðlafrelsi í Ástralíu

Húsleitir lögreglunnar tengjast umfjöllunum tveggja ástralskra fjölmiðla um meinta stríðsglæpi ástralskra hermanna annars vegar og áform leyniþjónustunnar um eftirlit með borgurum hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×