Handbolti

Óli Stef tekur skóna af hillunni og leikur með Val-U í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur þjálfaði karlalið Vals tímabilið 2013-14.
Ólafur þjálfaði karlalið Vals tímabilið 2013-14. vísir/vilhelm

Ólafur Stefánsson hefur ákveðið að taka skóna af hillunni og leika með Val U gegn Fjölni U í Origo-höllinni í Grill 66 deildinni í kvöld. Ólafur spilar þar með syni sínum, Einari Þorsteini.

Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarþjálfari karla- og kvennaliða Vals, mun einnig spila leikinn í kvöld en sonur hans, Benedikt Gunnar, leikur með Val U.

Ekki nóg með það heldur verður Dagur Sigurðsson á bekknum hjá Val U í kvöld. Hann mun þar aðstoða Anton Rúnarsson ásamt syni sínum, Sigurði.

Þrjár Valsgoðsagnir úr 1973-árganginum taka því þátt í leiknum í kvöld með einum eða öðrum hætti.

Síðasti handboltaleikurinn sem Ólafur, sem er 46 ára, lék var með Val í þriggja marka sigri á Akureyri, 26-23, í Olís-deild karla 31. október 2015. 

Ólafur skoraði sex mörk í leiknum sem var hans fyrsti hans í Valstreyjunni síðan liðið tryggði sér fjórða Íslandsmeistaratitilinn í röð með sigri á KA, 25-17, í Laugardalshöll 5. apríl 1996. Ólafur skoraði fjögur mörk í leiknum.

Dagur var markahæstur Valsmanna í umræddum leik með níu mörk. Eftir tímabilið fóru þeir Ólafur til Wuppertal í Þýskalandi.

Sonur Ólafur, Einar Þorsteinn, er 18 ára og þykir einnig liðtækur í körfubolta. Hann hefur skorað 27 mörk í 14 leikjum í Grill 66 deildinni í vetur. Valsmenn eru í 4. sæti hennar með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×