Erlent

Út­lit fyrir að Rússar sam­þykki stjórnar­skrár­breytingar

Þórgnýr Einar Albertsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa

Fyrstu tölur benda til þess að Rússar hafi samþykkt stjórnarskrárbreytingar í þjóðaratkvæðagreiðslu sem lauk í dag.

Atkvæðagreiðslan hófst á fimmtudag og snýst um þær breytingar sem Vladímír Pútín forseti vill að séu gerðar á stjórnarskrá landsins. Sú tillaga sem hefur vakið langmesta athygli snýst um hversu mörg kjörtímabil forseti má sitja.

Pútín er nú á öðru kjörtímabili sínu í röð og má samkvæmt núgildandi stjórnarskrá ekki gefa kost á sér á ný.

Ef breytingarnar taka gildi yrði hins vegar byrjað að telja upp á nýtt og gæti Pútín því setið til 2036, nái hann endurkjöri í tvígang.

Stjórnarandstæðingar segja kjósendur hafa sætt miklum þrýstingi í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar en landskjörstjórn segist ekki hafa orðið vör við nein alvarleg brot.

Aðrar breytingar sem til stendur að gera snúast meðal annars um að festa í stjórnarskrá að hjónaband sé eingöngu á milli karls og konu og það að rússneska tungan sé hið eina opinbera tungumál ríkisins.

Mótmælendur í Túngötu nú síðdegis.

Nokkrir mótmælendur söfnuðust saman við rússneska sendiráðið í Garðastræti í Reykjavík nú síðdegis til að mótmæla stjórnarskrárbreytingunum.

Mótmælendurnir báru margir skilti á bæði rússnesku og ensku. Á skiltunum mátti m.a. lesa setningar á borð við „Berjumst fyrir frelsi“ og „Enginn útrunninn forseti“. Þá mátti einnig sjá glitta í regnbogafána, alþjóðlegt tákn hinseginfólks.

Margir mótmælendanna báru skilti.

Tengdar fréttir

Afgerandi meirihluti sagður við að lengja valdatíma Pútín

Rúmlega þrír af hverjum fjórum kjósendum í Rússlandi greiddu atkvæði með stjórnarskrárbreytingum sem gerðu Vladímír Pútín forseta kleift að framlengja valdaskeið sitt í sextán ár í viðbót samkvæmt opinberum útgönguspám. 

Umdeildar kosningar hefjast í Rússlandi í dag

Kosningar um umdeildar stjórnarskrárbreytingar sem gætu gert Vladimir Pútín kleift að vera forseti í tvö kjörtímabil til viðbótar hefjast í Rússlandi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×