Handbolti

Aron hafði betur í Íslendinga uppgjöri Meistaradeildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron skoraði tvö mörk er Börsungar unnu nauman sigur á heimavelli.
Aron skoraði tvö mörk er Börsungar unnu nauman sigur á heimavelli. Vísir/Getty

Barcelona vann nauman tveggja marka sigur, 30-28, á Pick-Szeged í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði fjögur mörk í liði Pick-Szeged.

Sigur Börsunga kom ekki á óvart en hann var torsóttur í meira lagi. Liðið var á toppi A-riðils í Meistaradeildinni fyrir leik kvöldsins og talið sigurstranglegra áður en leikur hófst. Gestirnir í Pick-Szeged voru á öðru máli og byrjuðu leikinn einkar vel. Svo vel raunar að þeir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, staðan þá 15-13 gestunum í vil.

Börsungar náðu vopnum sínum í síðari hálfleik, jöfnuðu metin og komust svo yfir. Fór það svo að ógnarsterkt lið Börsunga vann leikinn með tveggja marka mun, 30-28. Skiptu mörk Arons þar miklu en hann skoraði tvö mörk í liði Barcelona í kvöld. Stefán Rafn gerði gott betur í liði  Pick-Szeged en hann gerði fjögur mörk úr aðeins fjórum skotum. Því miður dugðu þau ekki til sigurs.

Var þetta síðasta umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og bæði lið fara áfram í 16-liða úrslit. Börsungar unnu riðilinn með 26 stig en Pick-Szeged var í 3. sæti með 20 stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×