Íslenski boltinn

Þorsteinn: Forréttindi að berjast um titla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson er spenntur fyrir leiknum gegn Val á laugardaginn.
Þorsteinn Halldórsson er spenntur fyrir leiknum gegn Val á laugardaginn. vísir/elín björg

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, hafði yfir litlu að kvarta eftir stórsigurinn á ÍBV, 8-0, í dag.

„Nei, alls ekki. ÍBV var vængbrotið lið og við gerðum okkur þetta auðveldara fyrir með því að skora strax í byrjun,“ sagði Þorsteinn eftir leik.

Þrátt fyrir að sterka leikmenn vantaði í lið ÍBV var engin værukærð hjá Breiðabliki sem var 6-0 yfir í hálfleik.

„Mér fannst við gera þetta virkilega vel, af öryggi og festu. Við bárum það mikla virðingu fyrir andstæðingnum að við spiluðum af fullum krafti allan tímann,“ sagði Þorsteinn. Hann kveðst sáttur með hvernig hans lið kemur undan landsleikjahléinu.

„Jájá, þetta er í fínu lagi. Þótt andstæðingurinn hafi verið vængbrotinn spiluðum við heilt yfir vel.“

Á laugardaginn mætast Breiðablik og Valur í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

„Við byrjum að undirbúa leikinn á morgun. Við fögnum bara þremur stigum og svo byrjum við að einbeita okkur að leiknum á laugardaginn,“ sagði Þorsteinn.

En hefði hann viljað fá meira krefjandi leik fyrir stórleikinn gegn Val?

„Nei, alls ekki. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli. Þetta er bara einn af þeim leikjum sem þarf að spila og einn leikur í þessu móti. Svo er það stærsti leikur sumarsins eins og staðan er í dag,“ svaraði Þorsteinn. Hann hlakkar til leiksins gegn Val.

„Það eru ákveðin forréttindi að fá að taka þátt í svona leikjum. Það gefur þessu mikið, að vera í toppbaráttu, og það eru forréttindi að berjast um titla,“ sagði Þorsteinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×